Velkomin á vef ungra bænda

Print

Af skilningsleysi mínu og annarra

sigga_mynd_bblÁkveðin byggðaþróun hefur á undanförnum áratugum orðið á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Í þessari þróun felst að þorri landsmanna fylkir sér í helsta þéttbýli landsins á meðan sveitirnar standa hálftómar.
Ég hef aldrei haft áhuga á öðru en að búa í sveit og oft hafa rótgrónir þéttbýlisbúar, undrandi á þessari sérvisku minni, spurt mig af hverju. Í sveitinni, segja þeir, sé ekkert að gerast. Engin menning, engin kaffihús, ekkert leikhús, engin kvikmyndahús, raunar ekki neitt af neinu. Ég er hins vegar ekki sammála þessari fullyrðingu.
Fleiri en ein skýring eru til á orðinu  menning, og er ein þeirra að menning sé þroski  hugar og handa. Að mínu mati er ekki hægt að finna betri vettvang  til eflingar andans en sveitina, og umgengni við menn og skepnur sem þar finnast.
Að geta tölt út í hagann, lagt sig í græna lautu og fundið tengslin við náttúruna. Að geta fylgst með lífi líta dagsins ljós í fyrsta skipti á björtum nóttum vorsins.  Að geta söðlað hest sinn og riðið bæjarleið til að heimsækja góða granna. Að vita að sveitungarnir eru alltaf til staðar, samgleðjast manni þegar lífið gengur vel og bjóða fram aðstoð sína þegar eitthvað bjátar á.
Print

Að hjálpa sér sjálfur

Axel_mynd_bblÞað svar sem kemur hvað oftast fyrir þegar foreldrar eru spurðir um kosti þess að búa út á landi, er að þar er gott að ala upp börn.  Nú hef ég aldrei þurft að ala upp börn en hef enga ástæðu til að draga þessa fullyrðingu í efa, nema síður sé. En ég held að það sé einnig annar vinkill á þessu máli. Að búa í litlu samfélagi getur nefnilega einnig verið mjög þroskandi fyrir þá sem slitið hafa barnsskónum.

Eftir því sem færri einstaklingar mynda samfélag, þeim mun meiri ábyrgð hvílir á hverjum og einum. Það hefur fyrir löngu sýnt sig að ekki nokkur skapaður hlutur gerist af sjálfum sér, og mín reynsla er sú að fólk til sveita gerir sér betur grein fyrir þessu en þeir sem á mölinni búa.

En ekki má gleyma að nefna að það er líka auðveldara fyrir sveitamenn- og konur að láta að sér kveða í mannlífinum, sökum þess að óhjákvæmilega verður nálægðin við það sem mætti kalla æðstu stöður samfélagsins miklu mun meiri, hvort sem talað er um að komast að fólki sem þar situr, eða að vilja sitja þar sjálf/ur.

Vonandi kannast einhver, þó að væri ekki nema að einhverju leyti, við eftirfarandi dæmi. Við ímyndum okkur bóndabæ. Húsfreyjan á bænum situr í hreppsnefndinni. Húsbóndinn syngur bassa í karlakór, er fjallskilastjóri og sér um vísnaþáttinn í héraðsblaðinu. Á næsta bæ búa hjón sem taka árlega þátt í uppfærslu leikfélagsins á þekktum leikverkum. Hinu megin í dalnum býr svo tónlistarkennarinn, sem einnig stjórnar kirkjukórnum og áðurnefndum karlakór. Þetta fólk hittist svo reglulega um þessar mundir, sökum þess að þau eru í þorrablótsnefndinni þetta árið.

Það er nefnilega svo margt sem við viljum og þurfum að hafa í okkar samfélagi, hvort sem það mætti vera kallað menning eða þjónusta. Það má kannski ljúka þessu á þeim orðum að sveitin hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir um þessa hluti. En það fallega við þetta allt saman er að í sveitinni hjálpast líka allir að.

Eftir Axel Kárason dýralæknanema og B.S. í búvísindum frá LBHÍ.

Myndagallerí