Velkomin á vef ungra bænda

Print

Af aðalfundi 2014

Einar FreyrAðalfundur SUB var haldinn laugardaginn 22. mars í Úthlíð í Biskupstungum.

Samtök ungra bænda hafa það hlutverk að sameina unga bændur á Íslandi um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra. Jafnframt að vinna að bættri ímynd landbúnaðar með kynningar- og fræðslustarfi.
Ásamt hefbundnum aðalfundarstörfum voru tekin fyrir mál sem eru ungum bændum efst í huga um þessar mundir. Þar má nefna málefni Landbúnaðarháskóla Íslands, innflutningur erfðaefnis í íslenska kúastofninn, dýravelferð og nýliðun í landbúnaði.

Kosið var um nýjan formann samtakanna, en Jóhanna María Sigmundsdóttir gaf ekki kost á sér áfram. Tveir gáfu kost á sér í formannsembættið, þeir Logi Sigurðsson og Einar Freyr Elínarson. Skrifleg kosning staðfesti Einar Frey Elínarson, bónda í Sólheimahjáleigu í Mýrdal, sem nýjan formann samtakanna. Hann er þriðji formaður samtakanna frá stofnun og er kosinn til tveggja ára.
Sömuleiðis voru kosnir í stjórn til tveggja ára þeir Ástvaldur Lárusson frá Núpi í Dýrafirði og Orri Jónsson frá Lundi í Lundareykjardal.

Góður andi ríkti á fundinum og ungir bændur sjá fjöldamörg sóknartækifæri í landbúnaði, ef liðkað er fyrir nauðsynlegri nýliðun innan geirans. Fjölbreytt atvinnulíf er grunnur heilbrigðs samfélags og þar gegnir landbúnaður lykilhlutverki, enda hleypir hann lífi í dreifðar byggðir landsins og tryggir um leið íslenskum neytendum hollar og heilnæmar vörur.

Ályktun aðalfundar SUB um Landbúnaðarháskóla Íslands:

Aðalfundur Samtaka ungra bænda haldinn í Úthlíð 22. mars 2014 lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu Landbúnaðarháskóla Íslands og skorar á stjórnvöld að bæta fjárhagsstöðu hans. Tryggt verði að skólinn geti veitt góða kennslu í landbúnaðtengdum greinum bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi við skólann til framtíðar. Einnig verði öflugt rannsóknarstarf við skólann tryggt.

Greinargerð: Það er mikilvægt fyrir íslenskan landbúnað til framtíðar að áhugasamir ungir bændur geti sótt sér góða menntun hér á landi og að öflugt rannsóknarstarf fari hér fram. Til að það sé mögulegt þarf ríkisvaldið að tryggja nægt fjármagn . Námið þarf að vera þar sem stutt er í virkan landbúnað og yfirstjórn í góðum tengslum við landbúnaðinn.

Myndagallerí