Samþykktir

Print

Samþykktir

Samþykktir samtaka ungra bænda

1.gr.

Samtökin heita Samtök ungra bænda, skammstafað SUB. Þau eru aðili að Bændasamtökum Íslands (BÍ).  Heimili og varnarþing þeirra skal vera að heimili formanns hverju sinni.

2.gr.

Tilgangur SUB er að sameina unga bændur á Íslandi um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra. Jafnframt að vinna að bættri ímynd landbúnaðar með kynningar- og fræðslustarfi.

 
3.gr.

Rétt til aðildar að SUB hafa öll landshlutafélög ungra bænda, enda fari samþykktir þeirra ekki í bága við samþykktir samtakanna. Starfssvæði landshlutafélaga skulu að lágmarki miðast við mörk sýslna, en félag getur þó náð yfir stærra svæði.  Aðalfundur samtakanna skal staðfesta aðild og samþykktir nýrra aðildarfélaga, en stjórn staðfestir breytingar á samþykktum þeirra.

Aðildarfélög SUB eru eftirtalin:
Félag ungra bænda á Vesturlandi og Vestfjörðum (FUBVV)
Félag ungra bænda á Norðurlandi (FUBN)
Félag ungra bænda á Suðurlandi (FUBS)
Félag ungra bænda á Austurlandi (FUBA)

 

Rétt til fullrar aðildar að SUB hafa allir þeir sem eru á aldrinum frá 18 til 35 ára og hafa áhuga á málefnum landbúnaðar og landsbyggðarinnar.

4.gr.

Aðalfund samtakanna skal halda fyrir lok apríl ár hvert og hefur hann æðsta vald í málefnum samtakanna.

 

Til aðalfundar skal boðað skriflega eða á annan sannanlegan hátt með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Í fundarboði skal aðildarfélögum tilkynnt um frest til að senda inn mál sem leggja á fyrir fundinn. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað og meirihluti kjörinna fulltrúa mættur. Fundargögn skulu berast formönnum aðildarfélaga í síðasta lagi 10 dögum fyrir aðalfund.

 

Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál tekin fyrir:

 

1. Skýrsla stjórnar um starfsemi frá síðasta aðalfundi.

 

2. Endurskoðaður ársreikningur síðasta árs lagður fram til samþykktar.

 

3. Fjárhagsáætlun yfirstandandi árs

 
 

4. Ákvörðun um greiðslur til stjórnar- og skoðunarmanna fyrir störf í þágu samtakanna.

 

5. Kosning í stjórn og varastjórn skv. 5. gr.

 

6. Kosning skoðunarmanna og varamanna þeirra skv. 5. gr.

 

7. Kosning fulltrúa á Búnaðarþing samkvæmt samþykktum BÍ

 

8. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin

 

9. Árgjald félagsmanna.

 

Aðalfundur kýs sér tvo fundarstjóra sem stjórna fundinum og taka ákvörðun um málsmeðferð og atkvæðagreiðslur. Fundarstjórar tilnefna tvo fundarritara.

 

Í upphafi skal kjósa kjörbréfanefnd, skipaða þrem mönnum. Hún fer yfir kjörbréf og leggur fram tillögur sínar áður en almennar umræður eða atkvæðagreiðslur hefjast.

 

Aukafund skal halda þegar stjórn SUB telur nauðsyn til, svo og þegar tvö eða fleiri aðildarfélög krefjast þess bréflega. Skal í slíkri kröfu koma fram tilgangur þess að halda aukafund. Aukafund skal halda innan mánaðar frá því að krafan berst stjórn og skal hann boðaður með minnst viku fyrirvara.

 

Hvert aðildarfélag innan samtakanna kýs fulltrúa til setu á aðal- og aukafundum þeirra, sem hér segir:

 

Félög með 10 félaga eða færri kjósi 2 fulltrúa.

 

Félög með 11 til 20 félaga kjósi 4 fulltrúa.

 

Félög með 21 til 34 félaga kjósi 6 fulltrúa.

 

og félög með 35 félaga og fleiri kjósi 8 fulltrúa.

 

Kosning fulltrúanna gildir í eitt ár. Fjöldi fulltrúa og atkvæðisréttur þeirra miðast við gildandi félagaskrá sem borist hafi SUB eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund samtakanna. Fulltrúaréttur er háður skilum á gjöldum til samtakanna. Aðal- og aukafundir skulu opnir til áheyrnar öllum félagsmönnum SUB.

 

Kjörnir fulltrúar hafa einir atkvæðisrétt á fundum SUB og ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða úrslitum í afgreiðslu mála, nema þegar samþykktir mæla fyrir um aukinn meirihluta. Séu atkvæði jöfn í kosningu trúnaðarmanna skal hún endurtekin. Séu atkvæði enn jöfn skal hlutkesti ráða.

 

Stjórn SUB er heimilt að boða formenn aðildarfélaga saman til fundar. Fundurinn skal vera stjórn til samráðs og ráðgjafar og er ályktunarhæfur sé meirihluti formanna á fundi, en stjórn er ekki bundin af ályktunum slíks fundar.

 
5.gr.

Stjórn SUB skipa 5 menn og 5 til vara. Stjórnarmenn skulu kjörnir úr hópi fullgildra félagsmanna samtakanna.

 

Fyrst skal kjörinn formaður til tveggja ára með beinni skriflegri kosningu. Fái enginn meira en helming atkvæða skal kosið aftur bundinni kosningu á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Samfelldur starfstími formanns er að hámarki þrjú kjörtímabil. Því næst skulu kjörnir stjórnarmenn og varamenn þeirra til tveggja ára í senn. Kosið skal um tvo stjórnarmenn árlega. Að lokum skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og varamenn þeirra til tveggja ára.

 

Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár og mega þeir ekki sitja lengur í stjórn en þrjú kjörtímabil samfellt. Verði formaður kosinn úr hópi stjórnarmanna, skerða þau ár sem hann starfaði sem almennur stjórnarmaður ekki starfstíma hans sem formanns, sem er að hámarki þrjú kjörtímabil. Falli formaður frá eða verði að hætta störfum tekur varaformaður við sæti hans fram að næsta aðalfundi en þá skal kjörinn formaður til loka kjörtíma fráfarandi formanns. Seta hans þann tíma bætist við seturétt í þrjú kjörtímabil. Falli stjórnarmaður frá eða verði að hætta störfum skal varamaður hans taka sæti sem aðalmaður út kjörtímabilið en nýr varamaður skal kosinn á næsta aðalfundi til loka kjörtímabils. Taki varamaður sæti í stjórn bætist sá tími við seturétt hans í þrjú kjörtímabil. Stjórnin skal að loknum aðalfundi kjósa úr sínum hóp varaformann, ritara og gjaldkera sem er prófkúruhafi samtakanna, sjá þó 6. gr.

 

6.gr.

 

Stjórn samtakanna fer með málefni þeirra milli aðalfunda og fylgir ályktunum þeirra eftir. Enn fremur annast hún fjárreiður samtakanna og reikningsskil og ber sameiginlega ábyrgð á öllum fjármálum þeirra. Starfsár og reikningsár samtakanna er almanaksárið. Stjórn er heimilt að ráða framkvæmdarstjóra er annist þá daglega stjórn samtakanna í samræmi við ákvarðanir stjórnar. Framkvæmdastjóri er prófkúruhafi samtakanna. Stjórn getur skipað starfsnefndir í einstaka málaflokka sem gera þá tillögur til aðalfundar sé það talið henta.

 

Formaður boðar til stjórnarfundar. Stjórnarfundir skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir. Í fjarveru stjórnarmanns skal boða varamann. Formaður stýrir fundum stjórnar og er málsvari samtakanna út á við. Stjórnarfundi skal einnig boða ef tveir eða fleiri stjórnarmenn krefjast þess, enda hafi þeir tilkynnt formanni þá kröfu sína og getið þess í hvaða tilgangi beðið er um fundinn. Á stjórnarfundum skal einfaldur meirihluti ráða úrslitum mála og falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Halda skal fundargerðarbók um það sem fram fer á stjórnarfundum sem skal undirrituð af þeim sem sitja fund. Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri, sem er ekki sammála ákvörðun stjórnar, á rétt á því að fá sérálit sitt bókað. Stjórnarfundur er lögmætur sé meirihluti stjórnar á fundi.

 

7.gr.

 

Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi SUB og þarf til þess 2/3 hluta atkvæða aðalfundafulltrúa. Tillögur til breytinga á samþykktum þessum skulu sendar stjórn í tæka tíð og sendar til aðildarfélaga með fundarboði.

 

8.gr.

 

Til að slíta félaginu þarf að greiða um það atkvæði á tveim aðalfundum og þarf samþykki 2/3 hluta fulltrúa á báðum fundum. Verði félagið lagt niður skal eignum þess ráðstafað til Bændasamtaka Íslands til varðveislu og skulu þær nýttar með markmið félagsins í huga.

 
Samþykkt svo á aðalfundi 27. febrúar 2016.

Myndagallerí