Ungi bóndi mánaðarins

Print

Ungi bóndi mánaðarins (október 2013)

Þá er komið að unga bónda októbermánaðar, hún heitir Harpa Ósk Jóhannesdóttir og er búsett í Kaupmannahöfn við nám í dýralækningum. Hún sýndi snemma Harpa dýralæknatakta í búskapnum og liggur ekki á skoðunum sínum um framtíð landbúnaðar.

Hver er ungi bóndinn : Harpa Ósk Jóhannesdóttir

- Búseta:  Er um þessar mundir búsett í Kaupmannahöfn en er þó alltaf með annan fótinn heima á Herjólfsstöðum í Álftaveri, Vestur-Skaftafellssýslu

- Búskapur:  Sauðfé og kýr, svo er jú talsvert til af hrossum á bænum og nokkrar landnámshænur. 

- Menntun og fyrri störf :  Lauk stúdentsprófi frá Borgarholtsskóla árið 2011 og legg nú stund á nám í dýralækningum við Kaupmannahafnarháskólann. Ég hef mest starfað heima á Herjólfsstöðum við bústörfin og tamningar, en auk þess hef ég verið þjálfari í frjálsum íþróttum hjá Ungmennafélögunum Skafta og Kötlu. 

Harpa- Uppáhalds
*Heyskapur : 
Rúllur
*Dráttarvélategund : 
Massey Ferguson
*Búfénaður : 
Kýr, sauðfé og hross.
*Matur : 
Lambakjöt, hvernig sem það er matreitt.
*Drykkur : 
Mjólk beint úr tanknumHarpa1
*Lesefni : 
Fjárbókin er sennilega mest lesna ritið en það er líka alltaf gaman að fletta í gegnum Bændablaðið
*Sjónvarpsefni : 
Spennu- og gamanþættir

- Skemmtilegustu bústörfin?  Mjaltir, sauðburður og réttir. 

- Hvað ertu  dunda þessa dagana?  Er nýlega búin að koma heim í viku „frí“ þar sem ég gat slett úr klaufunum við mjaltir og fjárstúss. Komst svo að því að þetta viku frí var ætlað svo við gætum lesið fyrir komandi lokapróf, það gleymdist hinsvegar alveg. Þessa dagana er því nefið fast við bækurnar frá morgni til kvölds. 

- Skemmtileg minning úr búskapnum:  Það stendur sennilega uppúr hve snemma ég var ákveðin í að verða dýralæknir þegar ég yxi úr grasi. Ég var ekki há í loftinu þegar ég selflutti úlpur og aðrar flíkur út í fjárhús þegar ærnar fengu doða. Þær voru þá dúðaðar svo þeim yrði örugglega ekki kalt og fannst mér litlu máli skipta hvort ég sjálf yrði veik, það var mikilvægast að ærnar kæmust á lappirnar. Svo sat ég hjá þeim í stíunni, færði þeim vatn og nýja heytuggu og gladdist þegar þær tóku við. Allar stóðu þær svo upp fyrir rest. 
Nýlegra atvik er svo þegar ég eignaðist loks morgolótta gimbur og meira segja tvær! Það hafði mikið verið reynt en alltaf fæddust morgolóttu lömbin með skjóðu, í fjórðu tilraun hafðist það loks. Fullreynt í fjórða!

- Af hverju gekkst þú í SUB?  Mér fannst þetta strax spennandi samtök og innan þeirra fara fram málefnalegar umræður sem ég hef ákaflega gaman að fylgjast með og vera þáttakandi í ef ég hef eitthvað til þeirra að leggja. Sé fram á að samtökin eigi bara eftir að eflast og vera sterkur málsvari ungs fólks í landbúnaði. Auk þess er þetta skemmtilegur félagsskapur þar sem fólk hefur sömu áhuga mál og maður sjálfur.

- Ertu með eitthvert ráð til ungra bænda?  Gerist aðilar að félagssamtökum og verið dugleg að mennta ykkur og sækja námskeið. Það er endalaust hægt að læra eitthvað nýtt. Og ekki síst: látið engan annan segja hvað ykkur á að finnast um hitt og þetta, standið með ykkar skoðunum og komið þeim á framfæri.harpa3

- Hvað finnst þér um stöðu nýliðunar í landbúnaði? Hún er einfaldlega alls ekki góð. Mér finnst of algengt að eldri bændur sitji jarðirnar, búnir að selja kvótann og allt í niðurníðslu.

- Hvað finnst þér um félagskerfi bænda?  Þarf að kynna mér það betur en mér finndist synd ef Búnaðarfélögin myndu leggjast af.

- ESB? Nei

- Norskar kýr? Því síður, höldum íslenska kúastofninum hreinum og byggjum á sérstöðu hans.

- Finnst þér þörf á breytingum í Íslenskum landbúnaði? Já, það má fækka búskussunum. Þar á ég við að taka harðar á þeim málum sem snerta slæma meðferð á búfé, má þar nefna vanfóðrun en ekki síður að taka á þeim sem ekki sinna smalamennskum og láta þess í stað féð ganga úti veturlangt, oft í slæmri tíð. Það sama má segja um þá sem hafa fleiri tugi kúa og nautgripa, á öllum aldri, úti í sömu hjörð allt árið um kring. Eins má nefna þá aðila sem tileinka sér tamningaraðferðir sem byggja á hreinum hrottaskap.

- Hvaða frumlega búskap myndir þú taka upp ef "allt væri hægt"?  Úlfaldarækt

- Hver myndi leika þig í bíómynd? Ég er nú ekki nógu vel að mér í leikaraheiminum en það yrði sennilega einhver sem er bæði klaufsk og seinheppin af guðs náð, líkt og ég sjálf. 
- Áttu þér fyrirmynd? 
Já, foreldrar mínir og svo lít ég alltaf upp til stórabróðurs.
- Áttu þér uppáhalds grip á búinu (kú, kind, hænu, hross...)? 
Hvar á ég að byrja? Þau eru svo ótal mörg sem eru í uppáhaldi! En rjóminn af þeim eru sennilega kýrin Púka, nautið Blesi, kötturinn og gæsaskelfirinn Fígaró, hundurinn Lappi, hrúturinn Tommi, ærin Sína og hryssurnar Glæst og Mörk.
- 3 nauðsynja eignir unga bóndans: 
Lopapeysa, hvítbotna gúmmítúttur og ekki er verra að eiga góðan hníf
- Besta setning/orðatiltæki sem þú hefur heyrt: ,,
Fariði til andskotans og látið ekki sjá ykkur aftur..... en kooomiði svo aftur í haust.“ Hrópaði bóndinn á eftir geldfénaðinum þegar hann var rekinn úr heimatúnunum að vori. 
- Markmið framtíðarinnar? 
Starfa sem dýralæknir og vera málsvari málleysingjanna. Ásamt því er draumurinn að leggja stund á svipaðan búskap og ég hef alist upp við, þó með fleiri kúm.

harpa4Í hvernig skóm er besta að fara í göngur? (Spurning frá síðasta unga bónda mánaðarins) Sterkir gönguskór hafa reynst mér best. Strigaskór hafa ekki enst í fyrsta safni og á hvítbotna gúmmítúttunum býður maður upp á stórskemmtilega sýningu ef það þarf að fara niður brekkur, maður er lítið skárri en belja á svelli.

- Eitthvað  lokum?  Takk og bless!

 

Myndagallerí