Ungi bóndi mánaðarins

Print

Ungi bóndi mánaðarins (desember 2013)

 

Hver er ungi bóndinn : Aðalsteinn Orri Arason
Búseta : 560 Varmahlíð
Búskapur : Enginn, en 33 hobbýkindur, allt of mikið af hrossum, 15 hænur og einn tvíkynja hænsnfugl frá Ólafi á Grófargili.
Menntun: stúdent, húsasmiður og næstum því búfræðingur, kapíss!
Fyrri störf: vinna við smíðar, löndun, rúningsverktaka og margt fleira

 


Uppáhalds
Heyskapur : Aðstoða Immu mína á Reykjarhóli í heyskapnum.
Dráttarvélategund : Zetor 7745 túrbó
Búfénaður : Allt uppáhalds – svo lengi sem það skili afurðum...
Matur :  Guðslambið sjálft.
Drykkur : Íslenskt bergvatn. Kaffi og útí það á tyllidögum.
Lesefni :  Ég er núna að lesa Guðni léttur í lundu, alveg prýðisbók en bókin Forystufé eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan áður en ég lærði að lesa.
Sjónvarpsefni : Fékk Stiklur Ómars Ragnarssonar í jólagjöf, alveg frábært sjónvarpsefni.

 

 

Skemmtilegustu bústörfin? Gefa, ég bara elska að gefa sama hvaða skepnu um er að ræða, það er alltaf gaman að sjá gripina háma í sig hvanngræna töðuna.

Hvað ertu að dunda þessa dagana? Er í jólafríi frá mínu búfræðinámi svo ég hef verið að sniglast í fjárhúsunum hjá mér og aðstoðað sauðféð við að eðla sig og svo hef ég verið að smíða með Þórólfi á Hjaltastöðum stórvini mínum.

Skemmtileg minning úr búskapnum: Það var þegar ég var ungur að árum vinnumaður hjá stórbóndanum Valda í Sólheimum. Ég var að valta flag á Zetornum hans en Valdi hafði verið í jarðvegsvinnu með spreybrúsa í vélinni og eins og þið vitið þá er hungangsmjúk stillanleg sætisfjöðrun í Zetornum. Þessi fjöðrun  olli því að sætið hjó brúsann í herðar niður vegna rassþunga míns. Þegar ég tók eftir þessu þá reif ég brúsann upp og var heillengi að spá í hvað ég ætti að gera við hann, en á meðan á því stóð spreyjaði ég alla vélina að innan hátt og lágt með silfruðu spreyji áður en mér datt að henda brúsanum út. Mér var gert að skafa rúður og skammast mín eftir atburð þennan. Einnig var nú gaman með Hlyni verknámsbónda mínum á Voðmúlastöðum þegar Guðlaug kona hans var víðs fjærri og við fengum að vera með bjór í mjöltum, og í bústörfunum almennt.

 

 

Af hverju ert þú ungur bóndi? Ég er haldinn þeirri sérvisku að hafa gaman af skepnum og búskap.

Ertu með eitthvert ráð til ungra bænda? Hugsa nógu stórt, hugsa til framtíðar og halda sig á hægri vængnum. Hafa það hugfast það sem við Axel Kárason og Magnús á Þverá höfðum að leiðarljósi í hádegisverðarklúbbi okkar forðum daga: Lifa, læra og njóta.

Hvað finnst þér um stöðu nýliðunar í landbúnaði? Með nýrri ríkisstjórn og hækkandi sólu hef ég litlar áhyggjur af því, það er nóg af frambærilegu ungu fólki í landinu sem vill hefja búskap.

Hvað finnst þér um félagskerfi bænda? Það er byggt á styrkum stoðum, bændasamtökin eru sterk samtök.

ESB? Nei.

Norskar kýr? Hummmm, nei ekki endilega norskar...

Finnst þér þörf á breytingum í íslenskum landbúnaði? Nei það finnst mér reyndar ekki, stærðarhagkvæmnisstefna er jú það sem koma skal og nú ef að framleiðslutakmarkanir verða afnumdar á komandi árum verður spennandi að sjá hver þróunin verður.

 

 

Hvaða frumlega búskap myndir þú taka upp ef "allt væri hægt"? Lífræna framleiðslu á lausagöngu loðdýrum.

Hver myndi leika þig í bíómynd? Af hverju ætti einhver að vera að því? En ég held að það yrði þá Miley Cyrus.

Áttu þér fyrirmynd? Nei ég held bara að ég eigi mér enga fyrirmynd, enda lifi ég eftir minni sannfæringu.

Áttu þér uppáhalds grip á búinu (kú, kind, hænu, hross...)? Já það er hún Rósalind mín, þúfugæf og afurðasöm ær. Einnig er það hænan mín hún Dúna sem verpir hnefastórum eggjum.

3 nauðsynja eignir unga bóndans : Fangreistan íslenskan gæðing, rúningsklippur og kaffikönnu.

Besta setning/orðatiltæki sem þú hefur heyrt:  Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði.

Markmið framtíðarinnar? Eins og áður hefur komið fram: Lifa, læra og njóta. Hafa nógu gaman, vinna sem minnst fyrir sem mestan pening?

Eitthvað að lokum? Nei það held ég nú ekki.

Spurning frá síðasta unga bónda mánaðarins (Jón Ottesen): „Mokar þú haug eða skít?“ Ég moka skít Jón!

 

Myndagallerí