Ungi bóndi mánaðarins

Print

Ungi bóndi mánaðarins (febrúar 2014)

Hver er ungi bóndinn :
Antonía Hermannsdóttir

Búseta :  
Fossvogi Reykjavík en hef annan fótinn á Hjalla í Kjós

Búskapur :  
Kötturinn Loki, hesturinn Stúdent og ærin Rún – En foreldrar mínir reka lítið sauðfjárbú ásamt ferðaþjónustu, eiga hesta og þrjá hunda.

Menntun:  
Stúdent frá MR, lögreglumaður og BS‘c gráða í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands.


Uppáhalds
*Heyskapur :  Gömlu góðu þurrheysbaggarnir – góðar minningar frá æsku .
*Dráttarvélategund : Zetor.
*Búfénaður :  Sauðfé.
*Matur :  Elska allan mat. En slátur hjá mömmu er ofarlega á lista.
*Drykkur : Kók og íslenska vatnið.
*Lesefni : Undanfarið hafa það verið lög og reglugerðir sem snúa að búfjárrækt og velferð dýra.
*Sjónvarpsefni : Er mikið sci-fi nörd.

Skemmtilegustu bústörfin ?
Allt sem við kemur sauðfé.

Hvað ertu að dunda þessa dagana ?
Er tiltölulega nýbyrjuð að vinna sem dýraeftirlitsmaður hjá Matvælastofnun og reyni ég að eyða mestri orkunni í að kynna mér allt sem kemur því við. Annars hef ég verið að dunda mér við að gera íbúðina mína huggulega, auk þess sem ég er búinn að vera að hjálpa pabba í fjárhúsastússi.

Skemmtileg minning úr búskapnum :
Þegar ég og vinkona mín fórum í reiðtúr til að hreyfa hestana. Við riðum svo út í Meðalfellsvatn til að vatna hestunum og skola skítinn af þeim. Nema hvað við fórum of langt út og skyndilega var eins og fótunum var kippt undan þeim. Við höfðum valið dýpsta hyl vatnsins! Hestarnir hurfu ofan í vatnið og við með. Þeir syntu svo í land og stungu okkur af svo við þurftum að labba heim hundblautar.

Ertu með eitthvert ráð til ungra bænda ?
Eins og fram hefur komið stunda ég ekki búskap, en ég get eindregið hvatt ungt fólk sem hefur áhuga á landbúnaði að stunda nám við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar kynnist maður fullt af skemmtilegum sveitadurgum og getur lært af reynslu annarra.

Hvað finnst þér um stöðu nýliðunar í landbúnaði ?
Mætti vera meiri en skiljanlega er erfitt að hefja búskap frá grunni vegna þess hversu fasteigna-  og jarðarverð er hátt. Þó hefur mörgum tekist það svo allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi!

ESB ? Hef ekki kynnt mér það nógu vel til að mynda mér skoðun.

Norskar kýr ? Kalt mat - nei

Finnst þér þörf á breytingum í íslenskum landbúnaði ?  
Meiri nýliðun og aukin fræðsla til bænda hvað varðar lagabreytingar og aðra þætti sem viðkemur landbúnaði. Einnig er mikilvægt að búfjáreftirlitið verði skilvirkara og meira púðri sé eitt í þá staði sem ekki eru í lagi. En það er eitt af markmiðum Matvælastofnunar eftir að búfjáreftirlitið var fært þangað frá sveitafélögunum. Ég er bjartsýn um að það takist og get ég vonandi hjálpað til að ná því markmiði sem starfandi búfjáreftirlitsmaður í Suðvesturumdæmi.

Hvaða frumlega búskap myndir þú taka upp ef "allt væri hægt" ?
Mjaltarbás fyrir Kameldýr líkt og þeir gera í Dubai.

Hver myndi leika þig í bíómynd ?
Held það væri Jennifer Lawrence, hún er álíka mikil brussa og ég.

Áttu þér fyrirmynd?
Dugnaðinn í foreldrum mínum og svo á ég alveg einstaklega þolinmóðan kærasta sem ég mætti taka mér til fyrirmyndar oftar.

Áttu þér uppáhalds grip á búinu (kú, kind, hænu, hross...) ?
Hrúturinn Kjarvar, hann er stórskrítinn. Svo er hundurinn Smali í miklu uppáhaldi og að sjálfsögðu kötturinn Loki.

3 nauðsynja eignir unga bóndans :
Vinnugalli,  ullarsokkar og heil stígvél.

Besta setning/orðatiltæki sem þú hefur heyrt:
 „Ég geri sko ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn“ – Sódóma Reykjavík

Markmið framtíðarinnar ?
Vera jákvæð og eyða mestum tíma í að gera það sem mér þykir skemmtilegt. Og auðvitað standa mig vel í því sem ég tek mér fyrir hendur.

Eitthvað að lokum ?
„Sometimes if you want to see a change for the better, you have to take things into your own hands“ – Clint Eastwood

Á að mæta á setningu búnaðarþings 1.mars n.k. í Hörpu ? Nei