Velkomin á vef ungra bænda

Print

Fréttabréf í lok árs

Ágætu félagar,

Hér kemur lítið fréttabréf um starf stjórnar SUB á árinu 2016. Smellið á lesa nánar til að sjá bréfið í heild.

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi sem var haldinn á Hótel Sögu laugardaginn 27. febrúar sl.
Hana skipa;
Einar Freyr Elínarson formaður,
Jóna Björg Hlöðversdóttir varaformaður,
Jón Elvar Gunnarsson ritari,
Jóhannes Kristjánsson gjaldkeri og
Bjarni Rúnarsson meðstjórnandi.

Af aðalfundi í febrúar var á meðal tíðinda að samþykkt var að samtökin sæktu um aðild að Bændasamtökum Íslands, en sú umsókn var svo samþykkt á búnaðarþingi skömmu síðar þar sem fulltrúa SUB var boðið að sitja þingið. Jafnframt var gengið til liðs við Landssamtök æskulýðsfélaga auk margra annarra ályktana sem stjórn hefur unnið eftir síðan.

Eitt helsta málið sem stjórnin hefur unnið að var að koma sjónarmiðum ungra bænda að í búvörusamningunum. Eftir að bændur samþykktu búvörusamninga í atkvæðagreiðslu var strax hafist handa við að vinna að því að hagsmunir ungra bænda og nýliða yrðu varðir í framkvæmd samninganna, þó ekki væri búið að samþykkja samningana á Alþingi. Ljóst var að strax og samningar kæmust í gegnum þingið yrði mikil vinna eftir við reglugerðir. Fundað var m.a.  með framkvæmdaaðilum nýliðunarstuðnings (MAST) um hvernig hægt sé að útfæra stuðninginn þannig að hann nýttist sem best. Stjórnin vann einnig tillögur sem voru svo kynntar í landbúnaðarráðuneytinu og hefur síðan verið unnið eftir við reglugerðarsmíði. Samtökin fengu svo reglugerð fyrir rammasamning búvörusamninga til umsagnar.

Það var ánægjulegt að sjá að hugmyndir SUB fengu mjög góðan framgang í þeirri vinnu og við bíðum spennt eftir að sjá hvernig nýjar úthlutunarreglur um nýliðunarstuðning munu nýtast.

Á haustmánuðum var stjórn SUB svo beðin að tilnefna fulltrúa í endurskoðunarhóp um búvörusamninga en það er Jóna Björg sem tekur þar sæti. Fyrsti fundur hópsins verður haldinn í janúar 2017.
 

Samtök ungra bænda hlutu á Búnaðarþingi sérstök hvatningarverðlaun fyrir Ungur bóndi verkefnið á Snapchat, EN eitt er víst, þetta hefði aldrei gengið svona vel væru ekki svona margir skemmtilegir ungir bændur um allt land! Við viljum ólm að verkefnið gangi áfram vel og hvetjum ykkur til að hafa samband við okkur í stjórninni ef þið hafið hugmyndir um nýja snappara eða aðrar hugmyndir.

Stjórn SUB hefur mikinn áhuga á að halda áfram með kynningarverkefni í framhaldsskólum landsins, þó hlé hafi orðið á um tíma enda tókst verkefnið vel. Stefnt er á að verkefnið taki aftur til starfa sem fyrst.
Þegar vinnu við reglugerðir lýkur er stefnt á að kynna þann hluta nýrra búvörusamninga sem snýr að ungum bændum sérstaklega og er þá sérstaklega horft til aðalfunda landshlutafélaganna.

Félagsgjöld SUB fyrir árið 2016 voru sendar út til félagsmanna í byrjun nóvember. Samtökin vilja minna félagsmenn á það að borga félagsgjöldin sem fyrst.
Aðalfundur SUB verður svo haldinn í lok febrúar á Austurlandi, nánari upplýsingar þegar nær dregur.
 
Að lokum viljum við í stjórn SUB þakka fyrir okkur og óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs. Hlökkum til að vinna með ykkur á komandi ári!

Kveðja Stjórn SUB

 

Myndagallerí